Færsluflokkur: Bloggar
11.2.2008 | 22:09
Um blekkingar og/eða ekki blekkingar á íslenskum matvörumarkaði
Ég undrast oft hversu lítil umræða er um innihald og innihaldslýsingar á matvörum á Íslandi. Umræðan hér á blogginu er hverfandi lítil og mér finnst vanta einn link hér sem gæti heitið neytendamál.
24 stundir er sá fjölmiðill sem einna helst fjallar um neytendamál og þá á ég við það sem tengist mat og drykk
Oft finnst mér vanta upplýsingar um hvernig varan er meðhöndluð. Til dæmis appelsínusafa frá Sól. Í auglýsingunni segir 100% hreinn appelsínusafi. Ekkert fjarlægt og engu bætt við. Hvernig stendur þá á því að dagsstimpillinn er sex vikur. Ef ég tek appelsínur og kreisti úr þeim safann og set svo safann í ísskáp, þá verður hann grár á innan við sólarhring og byrjar að gerja á innan við 48 tímum. Það væri gaman að fá svar við þessu. Eru hvorki litarefni né rotvarnarefni í safanum? Af hverju geymist hann svona vel?
Er búið að taka hann í einhverja hitameðferð eins og mjólkina? Má þá segja að ekkert hafi verið fjarlægt? Það er allavega vitað með mjólkina að það er meira af vítamínum og bætiefnum í henni ógerilsneyddri.
Annað dæmi er Brúnegg: Slagorð þeirra er: Frjálsar hænur, vistvæn egg..... Er hægt að kalla hænur sem eru í búrum frjálsar? Og eru brúnegg eitthvað vistvænni en hvít hænuegg? Ég sá einhvers staðar að eini munurinn á brúnu og hvítu hænueggi væri litarmunurinn. Að næringarinnihaldið væri nákvæmlega það sama.
Við þekkjum allavega muninn á brúnu og ljósu brauði. Í mörgum tilfellum er munurinn bara sá að það er matarlitur (sósulitur) í brúna brauðinu.
Vistvænu hænurnar eru sennilega ekki aldar á sósulit þannig að það er ekki skýringin.
Létt og laggott: Auglýst sem eitthvað grennandi en er með 40% fituinnihald fyrir utan öll aukaefnin sem sett er í það.
Og talandi um að bæta einhverju í vöru til þess eins að þyngja hana og þar með að ná niður verðum. Skinka, lambakjöt, kjúklingakjöt, svínakjöt, fiskur o. fl. Í mjög mörgum tilfellum er ekki minnst á það í innihaldslýsingu hversu miklu er bætt í vöruna og almennt gera neytendur sér ekki grein fyrir því hvað það þarf mikið af aukaefnum til að allt þetta vatn tolli í vörunni a m k þar til að neytandinn er kominn með hana heim. Fréttaskýringarþátturinn kompás fjallaði um það fyrir ca ári síðan að neytendur væru að greiða ca 500.000.000 (fimm hundruð milljónir) bara fyrir vatnið sem er bætt í kjúklingakjöt á Íslandi. Þetta fengu þeir út með því að reikna út frá því að 10% af vatni og bindiefnum væri bætt við. Mín tilfinning er að í tilfellum svína og lambakjöts sé vatnið sem bætt er við í sumum tilfellum 20 - 25%. Hvað eru það mörg hundruð milljónir sem við borgum fyrir vatn. Hjá sumum framleiðendum og/eða matvöruverslunum er þetta gengið svo langt að það er búið að sprauta vatni í nánast alla kjöt og alla fiskvöru, þar með talið súpukjötið, lambahryggina, lambalærin, grísahnakkana, frosnu ýsubitana, beikonið, kjúklingabringurnar, áleggið o.s.frv. Allt kallar þetta á súpu af litarefnum, bindiefnum og öðrum efnum til að hægt sé að setja allt þetta vatn í vöruna og auka líkurnar á því að varan missi hvorki lit né geymsluþol.
Vissir þú að hakkið í sumum kjötborðum er alltaf rautt (verður aldrei grátt) vegna þess að það er rauður litur settur útí það. Það er líka til tækni sem sumir á íslenska markaðnum nota en með þeirri tækni er hægt að setja vatn í hakkið til að þyngja það. Hefur þér ekki fundist skrýtið hvað það steikist illa og hvað það kemur mikil gufa þegar þú setur það á pönnuna?
Vissir þú að 83% af innihaldi Season all, sem er sennilega vinsælasta kryddblandan á Íslandi, er salt. Saltið er litað rautt svo að varan sé sölulegri. Í innihaldslýsingunni er ekki minnst á litarefni heldur er bara einkvað e-númer sem er alls ekki hægt að ætlast til að hinn almenni neytandi kunni skil á.
Af hverju berjast neytendasamtökin og/eða ASÍ ekki í því fyrir okkur neytendur að herða upplýsingaskylduna á merkingum á matvöru og sjá til þess að innihaldslýsingar séu réttar og á máli sem allir skilja?
Stundum hafa þessir aðilar rölt sér út í matvörubúð og tekið sýni af kjötfarsinu til að rannsaka hversu mikið af sýklum og örverum eru með fasta búsetu í því en aldrei til að kanna hvað sé hátt kjötinnihald í því eða kanna hvað er í þessu yfir höfuð. Það vekur stundum hjá manni spurningar hvað sé í kjötfarsi sem kostar 499 út úr búð. Við vitum að VSK er 7% og lágvöruverðsverslanirnar segjast leggja 15 - 20 % á þannig að framleiðandinn er þá að fá í mesta lagi 350 - 400 kr kg. Er þessi krónutala ekki sú sama og skilaverð er til bænda og þá að sjálfsögðu með beini. Í mínum huga eru tveir möguleikar í stöðunni. Annaðhvort er mjög lítið kjötinnihald í vörunni og þess meira af vatni, hveiti og öðru sem notað er til að drýgja eða að annaðhvort kjötsalinn eða verslunareigandinn eru að selja langt undir kostnaðarverði og þar með stórtapa.
Hvort er hagkvæmara að kaupa lambalæri á 15% lægra verði sem hefur verið tekið í þyngdaraukningu upp á 20 - 25% eða lambalæri sem ekkert hefur verið átt við án afsláttar?
Er kannski ýsan í frystiborðinu á svona góðu verði af því að hún er panneruð tvisvar og þess vegna með 10% meira brauðrasp á sér?
Lægsta verðið segir nefnilega ekki allt. Ódýr matvara hefur oft á tíðum fengið meiri þyngdaraukningu sem rennur síðan úr vörunni í elduninni þannig að þegar upp er staðið er jafnvel hagkvæmara að kaupa dýrari steikina.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.1.2008 | 19:51
Er gengið út frá því að kjósendur séu fífl.
Dagur B. Eggertsson var í viðtali á rás 2 á milli kl 17:30 - 18:00 í kvöld. Þar vandaði hann ekki Ólafi F ekki kveðjurnar né heldur sjálfstæðismönnum. Hann hafði stór orð um vinnubrögðin við myndun nýja meirihlutans og sagði m.a.um atburðarás gærdagsins orðrétt, að það væru engin dæmi um að svona atburðarás hafi átt sér stað, hvorki hér né erlendis. Tilvitnun lýkur. Maður verður alveg kjaftstopp við svona ræðu. Gengur maðurinn að því gefnu að hlustendur og kjósendur séu hálfvitar. Heldur hann að við munum ekki þrjá mánuði aftur í tímann. Fyrir hinn almenna borgara , sem upplifir svona atburði í gegnum fjölmiðla er nákvæmlega enginn munur á þessum tveimur atburðum. Það er einfaldlega einn aðili sem gefst upp á samstarfinu og plottar við hina á laun í fyrstu og boðar síðan til blaðamannafundar. Málið dautt. Nú er ég ekki að segja að þessi vinnubrögð séu til fyrirmyndar, síður en svo, en svona var þetta í bæði skiptin.
Stjórnmálamenn verða að fara að gera sér grein fyrir því að kjósendur eru ekki fífl. Allavega ekki allir kjósendur.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.1.2008 | 19:29
Af pólitískum ráðningum
Eftir tvær umdeildar ráðningar Össurs Skarphéðinssonar, fyrst orkumálastjóra og síðan ferðamálastjóra er ljóst að það skiptir engu máli hvaða flokkur er við völd þegar kemur að vina, flokksgæðinga, væðingunni. Hægt væri að taka fjölmörg dæmi af síðustu ríkisstjórn Sjálfstæðismanna og Framsóknarmanna og nú hefur Samfylkingin stimplað sig rækilega inn. Ekki að það komi á óvart, kratar hafa svo sem verið við völd áður og hyglað sínum í tíma og ótíma.
Það er samt eitt sem gerir þessa gjörninga núna sérstaka en það er að það heyrist ekki múkk í framsóknarmönnum og bara smá tíst í VG. Það skyldi þó ekki vera að það sé búið að semja um vopnahlé þegar kemur að þessum ráðningum. "Ef við þegjum núna þá lofið þið að þegja þegar við verðum aftur komin í stjórn og þið í stjórnarandstöðu".
Ég hreinlega skil ekki hvernig þingmenn nenna að standa í þessum flokkaráðningum, vitandi að þeir fá yfir sig holskeflu af mótmælum frá þeim sem gengið var framhjá, frá fjölmiðlum og frá almenningi. Hvernig nennir ráðherra að eyða öllum þessum tíma og orku í að svara fyrir þetta með öllum þeim vonlausu rökum sem því fylgir og gerir ekkert annað en að draga úr trúverðugleika þeirra sjálfra.
Ósátt við rökstuðning ráðherra | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.12.2007 | 20:33
Fólk platað inn í verslanir á fölskum forsendum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
20.12.2007 | 20:17
Læknafélag Íslands - Kári Stefánsson
Rétt í þessu var að ljúka rökræðum í Kastljósi þar sem að formaður Læknafélags Íslands var til varnar fyrir dóm sem siðanefnd þess félags hafði fellt um ummæli Kára Stefánssonar í Kastljósþætti síðla árs 2005. Kári var sjálfur til varnar sínu mannorði. Umrædd ummæli Kára eru að hann sagði um einn tiltekinn lækni að sá hefði sig á heilanum. Þessi sami læknir hafði m a sagt um Kára að hann hefði ekki lækningaleyfi, að hann hefði svindlað á prófum í læknisfræðinni og margt margt fleira.
Það verður að segjast eins og er að eftir að hafa horft á þáttinn lítur málið mjög illa út fyrir Læknafélagið. Eins og málið var rakið lítur þetta meira út fyrir að vera persónuleg óvild stjórnarmanna og siðanefndar læknafélagsins í garð Kára og maður skilur vel að hann sé ekki sáttur. Satt að segja verð ég mjög hissa ef fleiri félagar í Læknafélagi Íslands standa ekki upp núna og mótmæla þessum vinnubrögðum stjórnarinnar.
Kári ætlar ekki að una þessum úrskurði og mér segir svo hugur um að þetta eigi eftir að kosta Læknafélagið töluverða peninga.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.12.2007 | 16:16
Ingólfur Ásgeir Jóhannesson er höfðingi
Þeit sem vilja kynnast Ingólfi betur þá er bloggið hans hér: http://ingolfurasgeirjohannesson.blog.is/blog/ingolfurasgeirjohannesson
Kæri Ingólfur. Í minni sveit voru menn með stórt hjarta kallaðir höfðingjar. Hafðu bestu þakkir.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.11.2007 | 19:15
Hvar er allt kýrkjötið?
Sem matreiðslumeistari hef ég oft velt því fyrir mér hvers vegna neytendur eða fjölmiðlar skuli aldrei spyrja þessarar spurningar. Hefur enginn tekið eftir því að það er aldrei hægt að kaupa kýrkjöt. Við vitum að árlega er slátrað tugum eða hundruðum tonna af kúm, en hvert fer kjötið? Staðreyndin er sú að mikið af því er selt sem nautakjöt. Ég er nokkuð viss um að ef húsmóðirin vissi að nautalundirnar sem hún keypti úti í matvörubúð á 3.990.- kílóið væru af 12 vetra gamalli mjólkurkú þá fengi hún hland fyrir hjartað. Ég hef í 26 ár tengst matvælaiðnaðinum með einum eða öðrum hætti og aldrei hef ég geta orðið mér úti um kýrkjöt. Það er einfaldlega ófáanlegt. Ég þykist nokkuð viss um að ef að einhver sláturleyfishafinn yrði spurður að því hvað hafi orðið um allt þetta kjöt mundi hann segja að það færi allt í vinnslu. Ég hefði gaman af að sjá hann fullyrða að allar kýrlundirnar, innralærin og hryggvöðvarnir síðustu 30 árin hafi farið í vinnslu. Nei nei nei.....þetta er allt selt sem ungnautakjöt. Nú er ég ekki að segja að þetta þurfi að vera slæmt hráefni, langt frá því, Það er bara ekki eðlilegt að bóndinn fái greitt fyrir þetta sem kýrkjöt en kjötsalinn breyti því síðan í nautakjöt og fái greitt fyrir það sem slíkt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
28.11.2007 | 21:17
Forsjárhyggjan ríður ekki við einteyming
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.11.2007 | 21:21
þessi yndislega bókaþjóð
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.11.2007 | 22:28
Er einhvað kjöt í kjötbollunum?
Það er mjög athyglisvert að sjá hvað umræðan um hugsanlega óhollustu e-efna og mikið unninna vara er skammt á veg komin hérlendis á miðað við t.d. í Englandi. 31. október birtu breskir vísindamenn niðurstöður úr rannsóknum á ýmsum fæðuflokkum þar sem að margt bendir til að t.d. reyktar vörur geti verið krabbameinsvaldandi. Fréttin birtist á forsíðu allra blaða í London og keypti ég tvö þeirra. Þar var hálf forsíðan undir þesa frétt og heil opna innan í blaðinu. Þegar við síðan komum til Íslands og fórum að leita eftir þessum fréttum í íslenskum fjölmiðlum var annað uppá teningnum. Lítil tveggja dálka frétt á lítt áberandi stað innan í mogganum var allt og sumt.
Umræða um óhollustu matar á Íslandi er á algjörum villigötum að mínu mati. Hér snýst umræðan að mestu leyti um fitu en nánast engin umræða er um litarefni, rotvarnarefni og öll þau drýgingarefni sem er bætt í okkar vöru í miklu magni. Það eru á markaðnum efni sem eru hrærð út í vatni og svo er hægt að steikja úr því bollur. Þessar bollur líta eins út og smakkast eins og kjötbollur en það er framleiðandinn sem hefur það í hendi sér hversu mikið kjöt hann notar. Lögin segja að það verði að vera að lágmarki 35% kjöt í t.d kjötfarsi, kjötbollum, kjötbúðingi o.fl til að það megi heita nafni þar sem orðið kjöt kemur fyrir. Þá er í lagi að það sé 65% einhvað annað en kjöt. Þegar kaupandi vöru leitar eftir lægsta verðinu hver er þá líklegastur til að vera ódýrastur? Er það ekki sá sem er með minnsta kjötið?
Í grein í Morgunblaðinu 7. nóv sl eftir Jónínu Þ. Stefánsdóttur kom fram að það ætti að koma fram á innihaldslýsingu hversu mikið er af einkennandi hráefnum í vöru. Þannig þarf að koma fram hvað er mikið af kjöti í kjötbollum og jarðarberjum í jarðarberjajógúrt. Á þessu er mikill misbrestur. og framleiðendur komast upp með það endalaust að gera ekkert í málinu. Neytendasamtökin virðast líta á að hlutverk sitt sé fyrst og fremst að gera verðkannanir en ekki að gæta þess og sannprófa innihaldslýsingar. Af hverju labba þeir sér ekki inní einhverja matvörubúðina kaupa einn pakka af fiskibollum einn af kjötbollum pylsur, beikon o sv frv og fara með það í sýni ehf og láta sannreyna hvert innihaldið er. Ég geri mér grein fyrir því að það er ekki hægt að kljúfa þetta alveg niður í smáatriði en það er hægt að komast nokkuð nærri. Svo á að birta niðurstöðurnar hvort heldur sem þær eru góðar eða slæmar fyrir framleiðandann.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)