Uppgjöf

Uppgjöf, skrifar Egill Helgason á síðu sína í dag. Mikið skil ég hann vel. Ég er sjálfur að fyllast einskærri uppgjöf. Uppgjöfin heltók mig þegar ég heyrði að KPMG ætti að rannsaka hrun Glitnis. KPMG, endurskoðandi Stoða og Baugs sem voru stærstu eigendur Glitnis og þar fyrir utan er forstjóri KPMG faðir forstjóra Stoða. Þetta var kornið sem fyllti mælinn hjá mér.  Öll mótmælin, öll bloggskrifin, allir borgarafundirnir, öll fjölmiðlagagnrýnin, þá sérstaklega á síðu og í þætti Egils Helgasonar, allir Kastljósþættirnir, o.s.frv........þetta skilar engu.  NÁKVÆMLEGA ENGU.  Stjórnmálamennirnir virðast frekar ætla að láta flokka sína þurrkast út en að aflétta spillingunni eða í það minnsta sporna við henni. 

Mér líður eins og þetta fólk hafi ótrúlega mikið að fela. Björgvin G Sigurðsson hlýtur að hafa gert sér grein fyrir því að það að skipa KPMG sem rannsóknaraðila á málum Glitnis myndi sæta mikilli gagnrýni og skapa mikla reiði.  Samt lætur hann sig hafa það.

Stundum heyrir maður sagt að Baugur starfi í skjóli Samfylkingarinnar. Fyrir þremur mánuðum hefði ég mótmælt því á sama hátt og ég hef í gegnum tíðina aldrei trúað því að einkavæðing bankanna hafi verið með þeim hætti að Búnaðarbankinn hafi verið afhentur Framsóknarflokknum og Landsbankinn Sjálfstæðisflokknum.  Í ljósi alls þess sem vellur upp á yfirborðið þessa dagana er ég ekki í minnsta vafa um að þessar þrjár tengingar hafa átt sér stað og/eða eiga sér stað.

Ég hef líka mikið hugsað um það af hverju enginn úr stjórnarandstöðunni tekur af skarið og ræðst í einhvað af þessum málum. Segjum sem svo að Sif Friðleifsdóttir mundi nú taka á sig rögg og kafa ofan í þetta með KPMG og Glitni, afla gagna, mæta í spjallþætti  og fylgja málinu eftir þar til að þessi gjörningur verði stoppaður. Þegar því væri lokið gæti hún tekið það fyrir að fjármálaeftirlitið er búið að vera í meira en ár að skoða STÍM og engin niðurstaða komin enn.  Agnes Bragadóttir blaðamaður á Mogganum er á innan við mánuði búin að upplýsa um að þarna séu mjög vafasamir viðskiptahættir við lýði svo vægt sé til orða komist.  Ég ímynda mér að Sif mundi vaxa í áliti hjá kjósendum sem eru margir hverjir mjög ráðvilltir.  Mér fynnst liggja í augum uppi að Sif, eða hver sá þingmaður sem myndi ráðast í þetta verk,  myndi vera með 98% þjóðarinnar á bak við sig ef hún/hann léti vaða í málin.  Við erum sennilega með duglausustu ríkisstjórn Íslandssögunnar en málið er bara að stjórnarandstaðan er ennþá duglausari.  

Ég hef í tvígang á síðustu mánuðum lent í úrtaki skoðanakannana þar sem spurt er hvaða flokk ég myndi kjósa ef gengið yrði til kosninga nú. Ég hef í bæði skiptin sagt að ég mundi skila auðu. Ég treysti ekki Samfylkingunni, treysti ekki Sjálfstæðisflokknum, ég treysti ekki Framsóknarflokknum og ég treysti ekki Frjálslynda flokknum.  Hagfræði Vinstri Grænna gengur ekki upp.  Ég segi PASS.

 


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband