Fólk platað inn í verslanir á fölskum forsendum.

Krúsindúllu Kim er eitthvað sem líkist krabba og er leikfang sem er þeim hæfileikum gætt að það kann að skrifa eða öllu heldur teikna s k v auglýsingu um umrætt tæki. Þetta tæki hefur verið auglýst í sjónvarpsauglýsingum daglega um nokkra stund. Verðið aðeins 1999.- og verslunin er TOYS-R-US. Dóttir mín sem er 5 ára tekur alltaf viðbragð þegar auglýsingin kemur og hefur beitt öllum sínum sannfæringarkrafti á okkur foreldrana. Þetta sé eitthvað sem hún geti engan veginn verið án. Seinnipartinn í dag lagði ég svo leið mína í umrædda leikfangaverslun og ætlaði að kaupa tækið og lauma því undir jólatréð, en viti menn tækið er ekki til. Starfsmaðurinn sem afgreiddi mig sagði að þetta tæki væri ekki væntanlegt og að það hefði ekki verið til nema í einn dag í búðinni. Maður spyr sig, hvers vegna að leggja í auglýsingaherferð á einhverjum hlut sem að ekki er ætlunin að selja í neinu magni? Jú svarið er auðvitað augljóst........að fá fólk í verslunina og það mun þá kaupa eitthvað annað þegar að það kemst að því að dótið sem átti að kaupa er ekki til. Þarna stóð maður í leikfangagímaldinu og hafði gert fjárhagsáætlun uppá 1999.- og maður varð að gera það upp við sig hvort að maður ætti að leita í öðrum búðum sem er auðvitað mjög tímafrekt þremur dögum fyrir jól eða hvort að maður ætti að kaupa eitthvað annað en þá færi fjárhagsáætlun dagsins út um þúfur og þar fyrir utan kitlaði þetta siðferðið hjá manni að hafa verið plataður í búðina.

Læknafélag Íslands - Kári Stefánsson

Rétt í þessu var að ljúka rökræðum í Kastljósi þar sem að formaður Læknafélags Íslands var til varnar fyrir dóm sem siðanefnd þess félags hafði fellt um ummæli Kára Stefánssonar í Kastljósþætti síðla árs 2005. Kári var sjálfur til varnar sínu mannorði. Umrædd ummæli Kára eru að hann sagði um einn tiltekinn lækni að sá hefði sig á heilanum. Þessi sami læknir hafði m a sagt um Kára að hann hefði ekki lækningaleyfi, að hann hefði svindlað á prófum í læknisfræðinni og margt margt fleira.

 

Það verður að segjast eins og er að eftir að hafa horft á þáttinn lítur málið mjög illa út fyrir Læknafélagið. Eins og málið var rakið lítur þetta meira út fyrir að vera persónuleg óvild stjórnarmanna og siðanefndar læknafélagsins í garð Kára og maður skilur vel að hann sé ekki sáttur. Satt að segja verð ég mjög hissa ef fleiri félagar í Læknafélagi Íslands standa ekki upp núna og mótmæla þessum vinnubrögðum stjórnarinnar. 

Kári ætlar ekki að una þessum úrskurði og mér segir svo hugur um að þetta eigi eftir að kosta Læknafélagið töluverða peninga.


Ingólfur Ásgeir Jóhannesson er höfðingi

Rétt í .þessu barst inn um bréfalúguna mína bók sem heitir: Karlmennska og jafnréttisuppeldi, eftir Ingólf Ásgeir Jóhannesson. Ingólfur er einn af þessum ofurduglegu bloggurum og í síðustu viku ákvað hann að gefa 25.000. Tuttuguogfimmþúsundasta gestinum á síðuna sína gjöf. Ég kíkti á síðuna hans þennan dag og var svo heppinn að hljóta vinninginn. Hann bætti um betur og sendi mér ekki bara bókina heldur gjafabréf á eitt af betri kaffihúsum borgarinnar og þangað mun ég halda fljótlega með konuna og slá um mig á kostnað Ingólfs. Sem bloggari er ég enn blautur á bak við eyrun og hálf villuráfandi en að kynnast svona hjartagæsku á þessum vetfangi lífgar mann við svona í svartasta skammdeginu.

Þeit sem vilja kynnast Ingólfi betur þá er bloggið hans hér: http://ingolfurasgeirjohannesson.blog.is/blog/ingolfurasgeirjohannesson

 

Kæri Ingólfur. Í minni sveit voru menn með stórt hjarta kallaðir höfðingjar. Hafðu bestu þakkir.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband