11.2.2008 | 22:09
Um blekkingar og/eða ekki blekkingar á íslenskum matvörumarkaði
Ég undrast oft hversu lítil umræða er um innihald og innihaldslýsingar á matvörum á Íslandi. Umræðan hér á blogginu er hverfandi lítil og mér finnst vanta einn link hér sem gæti heitið neytendamál.
24 stundir er sá fjölmiðill sem einna helst fjallar um neytendamál og þá á ég við það sem tengist mat og drykk
Oft finnst mér vanta upplýsingar um hvernig varan er meðhöndluð. Til dæmis appelsínusafa frá Sól. Í auglýsingunni segir 100% hreinn appelsínusafi. Ekkert fjarlægt og engu bætt við. Hvernig stendur þá á því að dagsstimpillinn er sex vikur. Ef ég tek appelsínur og kreisti úr þeim safann og set svo safann í ísskáp, þá verður hann grár á innan við sólarhring og byrjar að gerja á innan við 48 tímum. Það væri gaman að fá svar við þessu. Eru hvorki litarefni né rotvarnarefni í safanum? Af hverju geymist hann svona vel?
Er búið að taka hann í einhverja hitameðferð eins og mjólkina? Má þá segja að ekkert hafi verið fjarlægt? Það er allavega vitað með mjólkina að það er meira af vítamínum og bætiefnum í henni ógerilsneyddri.
Annað dæmi er Brúnegg: Slagorð þeirra er: Frjálsar hænur, vistvæn egg..... Er hægt að kalla hænur sem eru í búrum frjálsar? Og eru brúnegg eitthvað vistvænni en hvít hænuegg? Ég sá einhvers staðar að eini munurinn á brúnu og hvítu hænueggi væri litarmunurinn. Að næringarinnihaldið væri nákvæmlega það sama.
Við þekkjum allavega muninn á brúnu og ljósu brauði. Í mörgum tilfellum er munurinn bara sá að það er matarlitur (sósulitur) í brúna brauðinu.
Vistvænu hænurnar eru sennilega ekki aldar á sósulit þannig að það er ekki skýringin.
Létt og laggott: Auglýst sem eitthvað grennandi en er með 40% fituinnihald fyrir utan öll aukaefnin sem sett er í það.
Og talandi um að bæta einhverju í vöru til þess eins að þyngja hana og þar með að ná niður verðum. Skinka, lambakjöt, kjúklingakjöt, svínakjöt, fiskur o. fl. Í mjög mörgum tilfellum er ekki minnst á það í innihaldslýsingu hversu miklu er bætt í vöruna og almennt gera neytendur sér ekki grein fyrir því hvað það þarf mikið af aukaefnum til að allt þetta vatn tolli í vörunni a m k þar til að neytandinn er kominn með hana heim. Fréttaskýringarþátturinn kompás fjallaði um það fyrir ca ári síðan að neytendur væru að greiða ca 500.000.000 (fimm hundruð milljónir) bara fyrir vatnið sem er bætt í kjúklingakjöt á Íslandi. Þetta fengu þeir út með því að reikna út frá því að 10% af vatni og bindiefnum væri bætt við. Mín tilfinning er að í tilfellum svína og lambakjöts sé vatnið sem bætt er við í sumum tilfellum 20 - 25%. Hvað eru það mörg hundruð milljónir sem við borgum fyrir vatn. Hjá sumum framleiðendum og/eða matvöruverslunum er þetta gengið svo langt að það er búið að sprauta vatni í nánast alla kjöt og alla fiskvöru, þar með talið súpukjötið, lambahryggina, lambalærin, grísahnakkana, frosnu ýsubitana, beikonið, kjúklingabringurnar, áleggið o.s.frv. Allt kallar þetta á súpu af litarefnum, bindiefnum og öðrum efnum til að hægt sé að setja allt þetta vatn í vöruna og auka líkurnar á því að varan missi hvorki lit né geymsluþol.
Vissir þú að hakkið í sumum kjötborðum er alltaf rautt (verður aldrei grátt) vegna þess að það er rauður litur settur útí það. Það er líka til tækni sem sumir á íslenska markaðnum nota en með þeirri tækni er hægt að setja vatn í hakkið til að þyngja það. Hefur þér ekki fundist skrýtið hvað það steikist illa og hvað það kemur mikil gufa þegar þú setur það á pönnuna?
Vissir þú að 83% af innihaldi Season all, sem er sennilega vinsælasta kryddblandan á Íslandi, er salt. Saltið er litað rautt svo að varan sé sölulegri. Í innihaldslýsingunni er ekki minnst á litarefni heldur er bara einkvað e-númer sem er alls ekki hægt að ætlast til að hinn almenni neytandi kunni skil á.
Af hverju berjast neytendasamtökin og/eða ASÍ ekki í því fyrir okkur neytendur að herða upplýsingaskylduna á merkingum á matvöru og sjá til þess að innihaldslýsingar séu réttar og á máli sem allir skilja?
Stundum hafa þessir aðilar rölt sér út í matvörubúð og tekið sýni af kjötfarsinu til að rannsaka hversu mikið af sýklum og örverum eru með fasta búsetu í því en aldrei til að kanna hvað sé hátt kjötinnihald í því eða kanna hvað er í þessu yfir höfuð. Það vekur stundum hjá manni spurningar hvað sé í kjötfarsi sem kostar 499 út úr búð. Við vitum að VSK er 7% og lágvöruverðsverslanirnar segjast leggja 15 - 20 % á þannig að framleiðandinn er þá að fá í mesta lagi 350 - 400 kr kg. Er þessi krónutala ekki sú sama og skilaverð er til bænda og þá að sjálfsögðu með beini. Í mínum huga eru tveir möguleikar í stöðunni. Annaðhvort er mjög lítið kjötinnihald í vörunni og þess meira af vatni, hveiti og öðru sem notað er til að drýgja eða að annaðhvort kjötsalinn eða verslunareigandinn eru að selja langt undir kostnaðarverði og þar með stórtapa.
Hvort er hagkvæmara að kaupa lambalæri á 15% lægra verði sem hefur verið tekið í þyngdaraukningu upp á 20 - 25% eða lambalæri sem ekkert hefur verið átt við án afsláttar?
Er kannski ýsan í frystiborðinu á svona góðu verði af því að hún er panneruð tvisvar og þess vegna með 10% meira brauðrasp á sér?
Lægsta verðið segir nefnilega ekki allt. Ódýr matvara hefur oft á tíðum fengið meiri þyngdaraukningu sem rennur síðan úr vörunni í elduninni þannig að þegar upp er staðið er jafnvel hagkvæmara að kaupa dýrari steikina.
Athugasemdir
Takk fyrir þetta
Elísabet (IP-tala skráð) 21.2.2008 kl. 21:35
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.