Allt sjálfstæðismönnum að kenna.

Stundum,  þegar ég starfs míns vegna er á ferðinni um bæinn hlusta ég á Útvarp Sögu. Þar gefst hlustendum kostur á að hringja inn og tjá sig um hvað sem þeim dettur í hug.

Í gær var tvennt sem ég hnaut um. Annars vegar þegar hlustandi sagði að það væri ekki von að verkalýðsforystan væri veruleikafirrt. Þeir sem þar stjórnuðu væru með miklu hærri laun en umbjóðendur þeirra, fólkið sem þeir eru að semja fyrir.

Halda menn að árangurinn væri betri í kjaraviðræðunum ef að Verkalýðsforingjarnir væru með strípaðan taxta eins og þessi viðmælandi Útvarps Sögu lagði til. Fengjum við betri verkalýðsforingja ef að laun þeirra væru 120.000.-? Ég held ekki.

Hitt sem var athyglivert var þegar maður nokkur hringdi inn og sagði að á meðan að Sjálfstæðisflokkurinn væri við völd væri ekki von um kjarabætur. Hann sagði það frumskilyrði fyrir því að það ætti að nást árangur í kjaraviðræðunum að Sjálfstæðisflokkurinn færi frá og vinstri flokkarnir tækju við. Ekki ætla ég að halda því fram að Sjálfstæðisflokkurinn sé mestur og bestur og hann sé yfir gagnrýni hafinn, heldur hitt að ég bý í Hafnarfirði sem er eina sveitarfélag landsins þar sem að jafnaðarmenn hafa haft hreinan meirihluta í áratugi með smá hléum inn á milli. Þegar ég hlutstaði á manninn var ég á keyrslu með 5 ára dóttur mína með mér þótt að ég væri í vinnunni. Ástæðan..... Jú sú að deildin hennar á leikskólanum var lokuð vegna manneklu. Einn dag á viku er hún heima vegna þess að deildin hennar er lokuð. Hvernig stendur á því að jafnaðarmenn sýna það ekki í verki að þeir séu fjölskylduvænir stjórnendur. Hvers vegna hækka þeir ekki launin hjá starfsmönnum leikskólanna sinna. Það er enginn sem bannar þeim .það. Þeir geta ekki kennt íhaldinu um að laun leikskólakennara í Hafnarfirði séu svo lág að það fæst ekki fólk í störfin. Ekki geta þeir heldur sagt okkur kjósendum að það séu ekki til peningar, alla vega þykjast þeir hafa efni á að afþakka 400 manna vinnustað í bæjarfélagið. Þeir hreykja sér af því að framkvæmdir fyrir 6,7 miljarða verði á árinu 2008 í Hafnarfirði.

Ég væri alveg sáttur við að framkvæmdirnar yrðu "bara" 5,6 milljarðar, restin yrði til að bæta kjör starfsfólks leikskólanna svo að foreldrar barnanna geti farið að vinna.

Og úr því að það er svona æðislegt að hafa vinstri stjórn af hverju er þá ekki hlustað á íbúana þegar kemur að framkvæmdum í miðbæ Hafnarfjarðar. Samfylkingin í Hafnarfirði hefur státað sig af íbúalýðræði, af hverju er þá bara stundum íbúalýðræði en ekki alltaf?  Mótmæli íbúanna þegar kemur að skipulagsmálum í miðbæ Hafnarfjarðar hafa algerlega verið hundsuð. Gengið var framhjá svokallaðri miðbæjarnefnd þegar að tekin var ákvörðun um byggingar við Strandgötu 26 - 30

Fyrir ca ári síðan var umfjöllun í fréttum um vægast sagt mjög slæman aðbúnað rúmlega 50 erlendra verkamanna í húsnæði starfsmannaleigu við Dalshraun í Hafnarfirði. Húsnæðið uppfyllti í engu þær kröfur um aðbúnað og hollustuhætti sem í gildi eru né heldur kröfur um brunavarnir.  Það Grátlega að þessi sami fjölmiðill hafði fjallað um málið tveimur árum áður. Höfðu bæjaryfirvöld gert einkvað í málinu á þessum tveimur árum. NEI. Sjálfur jafnaðarmannaflokkurinn sem talar um velferð í öðru hverju orði hafði  látið gróf mannréttindabrot viðgangast í tvö ár án þess að aðhafast neitt í málinu. Það væri gaman að vita hvar þetta mál er statt núna.

Af hverju hefur Hafnarfjörður fallið um 14 sæti á einu ári á lista Vísbendingar yfir þau bæjarfélög þar sem best er að búa. Þrítugasta og sjöunda sætið. Er það ásættanlegt? Nei, svona stórt og öflugt bæjarfélag á auðvitað að vera á leiðinni upp listann en ekki niður. 

Nei bæjaryfirvöld hafa haft hundrað tækifæri og allan tíma í heimi til að sýna að þeir geti gert betur en íhaldið en staðan er síst skárri. Eins og staðan er búin að vera í Reykjavík ætti ekki að vera erfitt að toppa það stjórnarfar sem þar hefur ríkt síðustu vikur og mánuði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband