Færsluflokkur: Bloggar

Uppgjöf

Uppgjöf, skrifar Egill Helgason á síðu sína í dag. Mikið skil ég hann vel. Ég er sjálfur að fyllast einskærri uppgjöf. Uppgjöfin heltók mig þegar ég heyrði að KPMG ætti að rannsaka hrun Glitnis. KPMG, endurskoðandi Stoða og Baugs sem voru stærstu eigendur Glitnis og þar fyrir utan er forstjóri KPMG faðir forstjóra Stoða. Þetta var kornið sem fyllti mælinn hjá mér.  Öll mótmælin, öll bloggskrifin, allir borgarafundirnir, öll fjölmiðlagagnrýnin, þá sérstaklega á síðu og í þætti Egils Helgasonar, allir Kastljósþættirnir, o.s.frv........þetta skilar engu.  NÁKVÆMLEGA ENGU.  Stjórnmálamennirnir virðast frekar ætla að láta flokka sína þurrkast út en að aflétta spillingunni eða í það minnsta sporna við henni. 

Mér líður eins og þetta fólk hafi ótrúlega mikið að fela. Björgvin G Sigurðsson hlýtur að hafa gert sér grein fyrir því að það að skipa KPMG sem rannsóknaraðila á málum Glitnis myndi sæta mikilli gagnrýni og skapa mikla reiði.  Samt lætur hann sig hafa það.

Stundum heyrir maður sagt að Baugur starfi í skjóli Samfylkingarinnar. Fyrir þremur mánuðum hefði ég mótmælt því á sama hátt og ég hef í gegnum tíðina aldrei trúað því að einkavæðing bankanna hafi verið með þeim hætti að Búnaðarbankinn hafi verið afhentur Framsóknarflokknum og Landsbankinn Sjálfstæðisflokknum.  Í ljósi alls þess sem vellur upp á yfirborðið þessa dagana er ég ekki í minnsta vafa um að þessar þrjár tengingar hafa átt sér stað og/eða eiga sér stað.

Ég hef líka mikið hugsað um það af hverju enginn úr stjórnarandstöðunni tekur af skarið og ræðst í einhvað af þessum málum. Segjum sem svo að Sif Friðleifsdóttir mundi nú taka á sig rögg og kafa ofan í þetta með KPMG og Glitni, afla gagna, mæta í spjallþætti  og fylgja málinu eftir þar til að þessi gjörningur verði stoppaður. Þegar því væri lokið gæti hún tekið það fyrir að fjármálaeftirlitið er búið að vera í meira en ár að skoða STÍM og engin niðurstaða komin enn.  Agnes Bragadóttir blaðamaður á Mogganum er á innan við mánuði búin að upplýsa um að þarna séu mjög vafasamir viðskiptahættir við lýði svo vægt sé til orða komist.  Ég ímynda mér að Sif mundi vaxa í áliti hjá kjósendum sem eru margir hverjir mjög ráðvilltir.  Mér fynnst liggja í augum uppi að Sif, eða hver sá þingmaður sem myndi ráðast í þetta verk,  myndi vera með 98% þjóðarinnar á bak við sig ef hún/hann léti vaða í málin.  Við erum sennilega með duglausustu ríkisstjórn Íslandssögunnar en málið er bara að stjórnarandstaðan er ennþá duglausari.  

Ég hef í tvígang á síðustu mánuðum lent í úrtaki skoðanakannana þar sem spurt er hvaða flokk ég myndi kjósa ef gengið yrði til kosninga nú. Ég hef í bæði skiptin sagt að ég mundi skila auðu. Ég treysti ekki Samfylkingunni, treysti ekki Sjálfstæðisflokknum, ég treysti ekki Framsóknarflokknum og ég treysti ekki Frjálslynda flokknum.  Hagfræði Vinstri Grænna gengur ekki upp.  Ég segi PASS.

 


Atli Gíslason, fylgdu málinu eftir

Atli sýnir hugrekki með að koma fram með þessa spillingu, eða réttara sagt glæp. Nú skora ég á Atla að fylgja málinu eftir alla leið og sýna í verki að hann er ekki bara að slá sér til riddara með þessu viðtali. Atli, sjáðu til þess að málið verði rannsakað ofaní kjölinn af þar til bærum yfirvöldum og gerendurnir í málinu verði látnir sæta ábyrgð.
mbl.is Notuðu peningamarkaðssjóði
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bók um "sameiningartákn þjóðarinnar"

Hversvegna er gerð bók um Forsetann þegar að hann á að minnsta kosti 5 ár eftir í embætti? Getur verið að mönnum liggi svo á að varpa sprengjunum að það hafi ekki mátt bíða þar til að Ólafur Ragnar væri búinn að ljúka embættisskyldu sinni?

Það kom fram í viðtali við Guðjón Friðriksson, höfund bókarinnar, á rás 2 á eftir fréttum kl: 17:00 í dag að hann hafi verið að mestu búinn að skrifa bókina fyrir ári síðan og það kom einnig fram að hugmyndin af því að Guðjón skrifaði þessa bók hafi komið frá Ólafi Ragnari.

Bókin kom út í dag og nú þegar eru menn farnir að rengja það sem í henni stendur, enda þarna um eldfimt efni að ræða. Fyrst var fjallað um afskipti Davíðs Oddsonar af brúðkaupi Ólafs og Dorritar og nú "prótókollið" á kristintökuhátíðinni sbr meðfylgjandi frétt.

Gilda ekki sömu rök fyrir forsetann og seðlabankastjórann að menn í þessum embættum ættu ekki að fjalla um pólitík? Á ekki forsetinn að heita "sameiningartákn þjóðarinnar"? Gat Ólafur Ragnar ekki haldið í sér og varð að koma með þetta núna því að eftir fimm ár verða margir af þeim sem fjallað er um hættir í störfum sínum og þá verður reykurinn ekki eins mikill?

Er ekki bara málið að Ólafur Ragnar og Davíð Oddson eru líkir einstaklingar og eiga mjög erfitt með að hætta í pólítík og þrífast ílla nema í argaþrasi?


mbl.is „Haugalygi"
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver er nú að segja ósatt?

Nú er komin upp mjög sérstök og alvarleg staða í ríkisstjórninni. Ingibjörg Sólrún utanríkisráðherra  segist hafa setið 6 fundi með bankastjórum Seðlabankans þar sem alvarleg staða Íslenska bankakerfisins hafi verið rædd. Geir H Haarde segist einnig hafa setið fundi með seðlabankanum þar sem að þessi mál hafi verið rædd. Fundir þessir hafi verið allt frá fyrri hluta þessa árs og fram á haust.

Í dag hafa bæði Iðnaðarráðherra Össur Skarphéðinsson og Viðskiptaráðherra Björgvin G. Sigurðsson lýst því yfir að þeir hafi ekki heyrt af viðvörunum Seðlabankastjóranna um alvarlega stöðu Íslensku bankanna.

Það hljóta að teljast mjög alvarleg afglöp hjá Geir H. Haarde og Ingibjörgu Sólrúnu að upplýsa ekki ráðherra sína um það sem fór fram á fundunum. Allt íslenskt fjármálakerfi riðar til falls og það er ekki einu sinni rætt í ríkisstjórn.

Nú er maður enn og aftur kominn í þá stöðu að maður veit ekki hverjum maður á að trúa. Ég trúi því eiginlega ekki að þessi mál hafi ekki verið rædd innan ríkisstjórnarinnar og þá ekki heldur á flokksráðsfundum Samfylkingarinnar og ég trúi því heldur ekki að Björgvin og Össur séu svo vitlausir að segjast ekki hafa setið þessa fundi því að það er væntanlega mjög auðvelt að sanna hverjir sátu fundina.

Er ekki komið nóg af loðnum og lognum svörum?

 


mbl.is 6 fundir með seðlabankastjórn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Guðni Ágústsson og fréttastofa Stöðvar 2

Í kjölfar þess að Guðni Ágústsson sagði af sér þingmessu og formennsku í Framsóknarflokknum hafa fjölmiðlar reynt að ná tali af honum. Fréttamaður frá Stöð 2 hékk á dyrabjöllunni hjá honum í gærkveldi og linnti ekki látum fyrr en nánast var skellt á hann dyrasímanum.

 Síðan um sexleitið í morgun eru þeir svo mættir aftur og sitja fyrir Guðna. Hann benti þeim á yfirlýsinguna sem hann sendi frá sér í gær og bað um svigrúm. Fréttamaðurinn linnti ekki látum fyrr en Guðni sagði honum að fara heim,,,þrívegis. (Þetta með tímasetninguna var ekki innsláttarvilla, þetta var klukkan 06:00 að morgni)

Í fréttum stöðvar 2 í gær kom fram að Guðni mundi hækka í launum um ca 200.000.- á mánuði við að fara af þingi og á eftirlaun. Í fréttum í kvöld var þetta leiðrétt og sagt að hið rétta væri að Guðni mundi lækka um 280.000. - á mánuði.  Skekkjumörkin hjá fréttastofunni eru þarna tæp hálf miljón krónur pr mánuð.

Þrisvar sinnum á einum sólarhring hafa fréttamenn stöðvar 2 orðið sér til skammar út af Guðna Ágústssyni eða öllu heldur við nornaveiðar á Guðna Ágústssyni.

Nú er Guðni flúinn land og spurning hvaða fréttamaður frá Stöð 2 muni elta hann þangað.


Ólafur Teitur hættir hjá Straumi

Vonandi snýr hann aftur í fjölmiðlana. Hann er að mínu mati einn sá besti og vandvirkasti. Hann hefur líka veitt kollegum sínum gott aðhald, ekki veitir af.
mbl.is Ólafur Teitur hættur hjá Straumi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Instant bensín

Olíufélögin virðast fá eldsneytið með DHL til landsins. Allavega líða ekki margir klukkutímar frá því að það verður hækkun á heimsmarkaðsverði þar til að hækkunin hefur skilað sér til okkar. Ég held að þeir fái instant - bensín, svona eins og instant - kakómalt. Þeir fá duft í poka með DHL hræra svo einni skeið í vatn og þá er komin olía eða bensín. Ég sé alla vega ekki fyrir mér að fraktskipin séu á fimmta hundraðinu með bensínið yfir hafið.

Er fréttastofa Stöðvar 2 stjórnmálaflokkur?

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir skammaði fréttamann Fréttastofu stöðvar 2 fyrir að hún væri rekin eins og  stjórnmálaflokkur í kvöldfréttum stöðvarinnar nú í kvöld. Ástæða þessara ummæla er að fréttamaðurinn spurði hana útí hin umdeildu eftirlaunalög sem að hún sagði fyrir kosningar að það yrði fyrsta verk Samfylkingarinnar að breyta kæmist flokkurinn til valda.  Stöð 2 hefur uppá síðkastið spurt ýmsa þingmenn Samfylkingarinnar um hin ýmsu kosningaloforð sem þeir gáfu út í aðdraganda síðustu kosninga. 

Þegar formaður Samfylkingarinnar dettur í þennan hrokagír er það henni og flokknum sem hún stýrir ekki til framdráttar. Að hún skuli líta á það sem dónaskap að fréttamenn skuli reka á eftir kosningaloforðum er alveg stórmerkilegt. Það segir manni að það hafi aldrei verið meiningin að efna þau.

Ingibjörg Sólrún hafði uppi stórar yfirlýsingar í aðdraganda síðustu kosninga, um að þessum lögum yrði breytt kæmist Samfylkingin í ríkisstjórn. Er þá ekki eðlilegt að kjósendur fái að vita hvers vegna það sé ekki búið að því núna þegar svo langt er liðið á kjörtímabilið. Var hún ekki alltaf að tala um umræðustjórnmál. Ég er núna farinn að skilja hvað hún átti við með þessu orði: umræðustjórnmál. Það á bara að tala um hlutina og tala og tala og tala og helst bara þegar henni hentar. 


Einn góður

 Fékk þennan sendan á tölvunni og varð að láta hann flakka þó að orðbragðið sé ekki til fyrirmyndar, þið vonandi afsakið það. 

Krumpaður og eldgamall karl gengur inn í Lútersku kirkjuna og segir við einkaritara prestsins: Ég vil ganga í þessa helvítis kirkju.

Einkaritarinn sem er kona er bæði forviða og hneyksluð á orðbragði mannsins: Fyrirgefðu herra, ég hlýt að hafa misskilið þig. Hvað sagðirðu? 

Hlustaðu á mig andskotinn hafi það, gólar karlinn. Ég sagði að ég vildi ganga í þessa helvítis kirkju.

Mér þykir það leitt maður minn, en svona orðbragð verður ekki liðið hér í þessari kirkju. Og einkaritarinn stormar inn á skrifstofu prestsins til að láta hann vita af ástandinu.

Presturinn er hjartanlega sammála einkaritaranum sínum. Hún á alls ekki að þurfa að sitja undir svona hræðilegu orðbragði. Þau ganga saman fram aftur og presturinn spyr gamla karlfauskinn:

Herra minn, hvað er vandamálið?

 Það er ekkert fjandans vandamál, segir karlinn, sýnu skapverri en áður. Ég bara vann 200 milljónir helvítis lottóinu og ég vil ganga í þessa helvítis kirkju til að losna við eitthvað af þessum helvítis peningum.

Ég skil sagði presturinn rólega. Og er þessi kerlingartík hér að valda þér vandræðum?

 


Allt sjálfstæðismönnum að kenna.

Stundum,  þegar ég starfs míns vegna er á ferðinni um bæinn hlusta ég á Útvarp Sögu. Þar gefst hlustendum kostur á að hringja inn og tjá sig um hvað sem þeim dettur í hug.

Í gær var tvennt sem ég hnaut um. Annars vegar þegar hlustandi sagði að það væri ekki von að verkalýðsforystan væri veruleikafirrt. Þeir sem þar stjórnuðu væru með miklu hærri laun en umbjóðendur þeirra, fólkið sem þeir eru að semja fyrir.

Halda menn að árangurinn væri betri í kjaraviðræðunum ef að Verkalýðsforingjarnir væru með strípaðan taxta eins og þessi viðmælandi Útvarps Sögu lagði til. Fengjum við betri verkalýðsforingja ef að laun þeirra væru 120.000.-? Ég held ekki.

Hitt sem var athyglivert var þegar maður nokkur hringdi inn og sagði að á meðan að Sjálfstæðisflokkurinn væri við völd væri ekki von um kjarabætur. Hann sagði það frumskilyrði fyrir því að það ætti að nást árangur í kjaraviðræðunum að Sjálfstæðisflokkurinn færi frá og vinstri flokkarnir tækju við. Ekki ætla ég að halda því fram að Sjálfstæðisflokkurinn sé mestur og bestur og hann sé yfir gagnrýni hafinn, heldur hitt að ég bý í Hafnarfirði sem er eina sveitarfélag landsins þar sem að jafnaðarmenn hafa haft hreinan meirihluta í áratugi með smá hléum inn á milli. Þegar ég hlutstaði á manninn var ég á keyrslu með 5 ára dóttur mína með mér þótt að ég væri í vinnunni. Ástæðan..... Jú sú að deildin hennar á leikskólanum var lokuð vegna manneklu. Einn dag á viku er hún heima vegna þess að deildin hennar er lokuð. Hvernig stendur á því að jafnaðarmenn sýna það ekki í verki að þeir séu fjölskylduvænir stjórnendur. Hvers vegna hækka þeir ekki launin hjá starfsmönnum leikskólanna sinna. Það er enginn sem bannar þeim .það. Þeir geta ekki kennt íhaldinu um að laun leikskólakennara í Hafnarfirði séu svo lág að það fæst ekki fólk í störfin. Ekki geta þeir heldur sagt okkur kjósendum að það séu ekki til peningar, alla vega þykjast þeir hafa efni á að afþakka 400 manna vinnustað í bæjarfélagið. Þeir hreykja sér af því að framkvæmdir fyrir 6,7 miljarða verði á árinu 2008 í Hafnarfirði.

Ég væri alveg sáttur við að framkvæmdirnar yrðu "bara" 5,6 milljarðar, restin yrði til að bæta kjör starfsfólks leikskólanna svo að foreldrar barnanna geti farið að vinna.

Og úr því að það er svona æðislegt að hafa vinstri stjórn af hverju er þá ekki hlustað á íbúana þegar kemur að framkvæmdum í miðbæ Hafnarfjarðar. Samfylkingin í Hafnarfirði hefur státað sig af íbúalýðræði, af hverju er þá bara stundum íbúalýðræði en ekki alltaf?  Mótmæli íbúanna þegar kemur að skipulagsmálum í miðbæ Hafnarfjarðar hafa algerlega verið hundsuð. Gengið var framhjá svokallaðri miðbæjarnefnd þegar að tekin var ákvörðun um byggingar við Strandgötu 26 - 30

Fyrir ca ári síðan var umfjöllun í fréttum um vægast sagt mjög slæman aðbúnað rúmlega 50 erlendra verkamanna í húsnæði starfsmannaleigu við Dalshraun í Hafnarfirði. Húsnæðið uppfyllti í engu þær kröfur um aðbúnað og hollustuhætti sem í gildi eru né heldur kröfur um brunavarnir.  Það Grátlega að þessi sami fjölmiðill hafði fjallað um málið tveimur árum áður. Höfðu bæjaryfirvöld gert einkvað í málinu á þessum tveimur árum. NEI. Sjálfur jafnaðarmannaflokkurinn sem talar um velferð í öðru hverju orði hafði  látið gróf mannréttindabrot viðgangast í tvö ár án þess að aðhafast neitt í málinu. Það væri gaman að vita hvar þetta mál er statt núna.

Af hverju hefur Hafnarfjörður fallið um 14 sæti á einu ári á lista Vísbendingar yfir þau bæjarfélög þar sem best er að búa. Þrítugasta og sjöunda sætið. Er það ásættanlegt? Nei, svona stórt og öflugt bæjarfélag á auðvitað að vera á leiðinni upp listann en ekki niður. 

Nei bæjaryfirvöld hafa haft hundrað tækifæri og allan tíma í heimi til að sýna að þeir geti gert betur en íhaldið en staðan er síst skárri. Eins og staðan er búin að vera í Reykjavík ætti ekki að vera erfitt að toppa það stjórnarfar sem þar hefur ríkt síðustu vikur og mánuði.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband